Teymi


Aðalheiður Atladóttir - arkitekt A2F arkitektar

Jökull Sólberg Auðunsson - vefhönnuður

Dagný Bjarnadóttir - landslagsarkitekt FÍLA

Falk Krüger arkitekt - arkitekt A2F akitektar

Andri Snær Magnason - rithöfundur


Tengiliðir | Aðalheiður Atladóttir gsm 845 8201, alla@a2f.is | Dagný Bjarnadóttir gsm 820 5355, dagny@dld.is

"Hæg breytileg átt" verkefni um nýjar hugmyndir um vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkosti fyrir Reykjavík.

Tíðarandi – samfélagssýn Við erum að upplifa nýja tíma, þar sem fólk er tilbúnara að deila lífi sínu og gæðum með öðrum. „The sharing Economy“ deilihagkerfi er bylgja sem fólk um allan heim er að ástunda. Að lána eða skiptast á íbúðum eða veita gistingu í sófanum heima hjá sér er sjálfsagður hlutur í dag, sem hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Við viljum kynnast menningu og lífi fólks í ólíkum löndum, geta búið tímabundið víða um heim. Aukin vitund er um uppruna og ræktun matvæla í borgarrýmum, og jákvæð áhrif gróðurs og umhverfis á andlega og líkamlega vellíðan. Mikil vöntun er á fjölbreyttara íbúðaframboði, ódýru húsnæði fyrir stúdenta og annað ungt fólk, þar sem samnýta mætti ýmis rými til að halda kostnaði niðri og til að skapa félagslega nálgun, nokkurs konar “kommúnu-fyrirkomulag”. Einnig er skortur á húsnæði fyrir breytilegar fjölskyldustærðir. Margar fjölskyldur eru í dag svokallaðar samsettar fjölskyldur, þar sem fjölskyldan getur samanstaðið af 4 manneskjum aðra vikuna en 6 þá næstu. Við viljum að börnunum okkar líði jafn vel á báðum stöðum. Þegar við eldumst væri gott að geta minnkað við sig án þess að þurfa að skipta alveg um umhverfi og fórna t.d garðinum sem þú hefur lagt alúð við hálfa ævina. Hópurinn hefur mótað þá sýn að vilja vinna með húsnæði út frá fyrrgreindum áherslum. Í borginni eru svæði sem eru að breytast úr verslunar –og iðnaðarhverfum í íbúðarhverfi, í þeim felast tækifæri til að endurnýta og umbreyta húsnæði og umhverfi. Við hugsum okkur að nýta og endurhanna, með vistvænum áherslum, út frá hugmyndafræði okkar „Lókal – glóbal búseta“. Áhersla verður á að endurnýta og endurskapa frekar en að rífa til grunna. Hugmyndin gengur út á að hanna fjölbreytta búsetumöguleika, þar sem herbergjaskipan getur breyst auðveldlega eftir aðstæðum. Að þú getir byrjað ungur og endað gamall í sama húsnæðisforminu. Samhliða þessu viljum við vinna með gróður sem hluta af lífstíl, bæði inni og úti, matvælaræktun, í gróðurhúsum og utandyra, sem yrði tvinnað inn í hönnun hýbýlanna, hænur væru einnig velkomnar. Safnkassar og hringrás lífræns úrgangs yrði nýtt í ræktunina. Áhersla á efnisflokkun verðmæta og hringrás hluta fremur en sorp og sóun. Húsið yrði fjölbreytt samsetning af íbúðum og vinnustofum, þar sem einnig verður mögulegt að leigja sig inn í vinnuaðstöðu og íbúð tímabundið. Við hugsum þetta jafnframt sem nýtt húsnæðisform þar sem hægt verður að skiptast á eða leigja sambærilegt húsnæði annar staðar í heiminum. Þannig ætlum við að vinna í að búa til konsept og markaðshugmynd fyri íbúðaformið, sem myndi virka bæði lókal og glóbal. Samhliða hönnun hússins er hannað vefumhverfi þar sem hægt verður að skoða búsetumöguleikana, ásamt innri vef fyrir íbúa, hvers svæðis.

Verkefnið var eitt af fjórum tillögum í þróunarverkefninu "Hæg breytileg átt", en að því stóðu Hönnunarsjóður Auroru, Hönnunarmiðstöð, Reykjavíkurborg, Samtök Iðnaðarins, Félagsbústaðir, Búseti, Félagsstofnun stúdenta, Upphaf fasteignafélag, Listaháskóli Íslands og Velferðarráðuneytið.